*

sunnudagur, 28. febrúar 2021
Innlent 19. febrúar 2021 18:58

509 milljónir vegna alþjónustu

Íslandspóstur fær 259 milljónir króna, til viðbótar við 250 frá 2019, í viðbót frá eiganda sínum fyrir að sinna alþjónustu 2020.

Jóhann Óli Eiðsson
Þórhildur Ólöf Helgadóttir er nýráðinn forstjóri Póstsins.
Aðsend mynd

Alþjónustubyrði Íslandspósts á árinu 2020 var 509 milljónir króna og mun félagið fá þá upphæð greidda úr ríkissjóði. Þetta felst í ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS). Frá upphæðinni dragast 250 milljónir króna sem félagið fékk í svokallað varúðarframlag í árslok ársins 2019. 

Árið 2020 tóku gildi ný lög um póstþjónustu en þau fólu í sér að einkaréttur ríkisins til dreifingar bréfa féll niður. Þá var inntaki alþjónustu breytt á þann veg að hún nær nú til böggla upp að tíu kílógrömmum í stað tuttugu áður. Þessu til viðbótar var gerð breyting á frumvarpinu í meðförum þingsins á þann veg að sama verð skyldi vera á alþjónustu um land allt. 

Samkvæmt ákvörðun PFS þá kostar sú ákvörðun, sem gerð var með byggðasjónarmið í huga, 127 milljónir króna en Pósturinn brást við henni með því að lækka gjaldskrá sína á landsbyggðinni niður á verð höfuðborgarsvæðisins. Var það stutt þeim rökum að aðrir kostir fælu í sér að ofrukkað yrði á höfuðborgarsvæðinu. Það myndi síðan leiða til þess að félagið myndi verðleggja sig út af samkeppnismarkaði, viðskipti myndu tapast sem síðan myndi kalla á frekari hækkanir. 

Í eldri póstþjónstulögum kom fram að óheimilt væri að nýta tekjur af einkarétti til þess að greiða niður verð í samkeppnisrekstri nema slíkt væri beinlínis nauðsynlegt til að greiða niður alþjónustukostnað. „Ef ekki hefði komið til þessarar sérstöku heimildar í lögunum hefði gjaldskrá ÍSP innan einkaréttar verið lægri en á móti hefði komið að finna hefði þurft aðra leið til að bæta ÍSP (alþjónustuveitanda) upp það tap sem óneitanlegar verður til við að bjóða upp á sambærilega þjónustu um land allt og á þeim stöðum,“ segir í ákvörðun PFS.

Samkvæmt greiningum í tíð eldri póstþjónustulaga var það mat PFS að alþjónustubyrði Póstsins hefði verið á bilinu 50-130 milljónir króna á ári að teknu tilliti til hagræðis sem af einkaréttinum hlaust og mögulegrar hagræðingar. Að mati stofnunarinnar nú samanstendur krafan af 257 milljón króna kostnaði vegna landspósta og181 milljón króna vegna svokallaðra kaldra markaðssvæða. Við það bætist byrðin af samræmdri gjaldskrá en aðrir þættir koma til lítillar hækkunar. 

Í nóvember 2019 var ákveðið að Pósturinn fengi 250 milljónir króna í svokallað varúðarframlag vegna alþjónustunnar. Við hana bætast því nú 259 milljónir króna, samanlagt 509 milljónir króna vegna ársins 2020. 

Stikkorð: Íslandspóstur