*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Innlent 8. apríl 2019 11:32

55% andvígur innflutningi á fersku kjöti

Rúmlega helmingur landsmanna sagðist andvígur því að innflutningur á fersku kjöti frá löndum innan EES verði heimilaður.

Ritstjórn

Rúmlega helmingur landsmanna, eða 55%, sagðist andvígur því að innflutningur á fersku kjöti frá löndum af Evrópska Efnahagssvæðinu (EES) verði heimilaður en 27% kváðust fylgjandi. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 11.-14. mars 2019. Alls kváðust 38% aðspurðra mjög andvíg því að slíkur innflutningur verði heimilaður, 18% kváðust frekar andvíg, 17% hvorki fylgjandi né andvíg, 15% frekar fylgjandi og 12% mjög fylgjandi.

Fleiri karlar fylgjandi innflutningi fersku kjöti

Karlar (37%) reyndust líklegri en konur (17%) til að segjast fylgjandi því að innflutningur á fersku kjöti frá löndum af Evrópska Efnahagssvæðinu verði heimilaður en 63% kvenna kváðust andvígar slíkum innflutningi, samanborið við 48% karla. Andstaða gegn innflutningi jókst með auknum aldri en 70% svarenda á aldrinum 68 ára og eldri kváðust frekar eða mjög andvígir því að innflutningur verði heimilaður, samanborið við 52% þeirra 18-29 ára og 49% þeirra 30-49 ára. Stuðningur við innflutning reyndist mestur á meðal svarenda á aldrinum 30-49 ára (34%) en minnstur hjá þeim 18-29 ára (20%).

Þá reyndust svarendur búsettir á landsbyggðinni líklegri til að segjast andvígir innflutningi á fersku kjöti (69%) heldur en íbúar höfuðborgarsvæðisins (47%) en yfir helmingur landsbyggðarbúa kvaðst mjög andvígur (55%). Svarendur af höfuðborgarsvæðinu reyndust hins vegar líklegri til að segjast fylgjandi því að innflutningur verði heimilaður (33%) heldur en þeir af landsbyggðinni (17%).

Ef litið er til stjórnmálaskoðana má sjá að stuðningsfólk Viðreisnar (68%), Samfylkingar (51%) og Pírata (46%) reyndust líklegust til að segjast fylgjandi því að innflutningur á fersku kjöti af EES svæðinu verði heimilaður. Stuðningsfólk Framsóknar (82%), Miðflokks (80%) og Vinstri-grænna (78%) reyndust hins vegar líklegust til að segjast andvíg því að innflutningur verði heimilaður.

Stikkorð: MMR ferskt kjöt