Fjöldi starfandi einstaklinga samkvæmt skrám hefur dregist saman á þessu ári samanborið við árið 2019, hvort sem horft er til einstakra ársfjórðunga eða mánaða. Á þriðja ársfjórðungi 2020 dróst fjöldi starfandi einstaklinga saman um 5,5% á milli ára, var að meðaltali 196.603 miðað við 208.128 á sama tímabili árinu áður. Hagstofa Íslands greinir frá þessu.

„Sambærilegur samdráttur (5,5%) varð á öðrum ársfjórðungi en alls voru þá að meðaltali 192.033 starfandi miðað við 203.281 á sama tímabili árið 2019. Á fyrsta fjórðungi 2020 var hlutfallsleg lækkun upp á 1,7% en 192.289 störfuðu að meðaltali í hverjum mánuði ársfjórðungsins samanborið við 195.572 á sama tímabili ári áður,“ segir í frétt Hagstofunnar.

Ef horft sé til breytinga eftir mánuðum innan þriðja ársfjórðungs komi í ljós að munur á milli ára hafi aukist stöðugt frá júlí til september. Þannig hafi alls 211.957 verið starfandi í júlí 2019, 209.299 í ágúst og 203.128 í september samanborið við 203.965 í júlí 2020, 198.913 í ágúst og 186.933 í september.

Starfandi einstaklingum hafi því fækkað um 3,8% í júlí, 5,0% í ágúst og 8,0% í september samkvæmt staðgreiðslugögnum.

Á landsvísu hafi mesti samdráttur verið í september á Suðurnesjum, en þar störfuðu 14.969 árið 2019 en 12.566 árið 2020 sem er hlutfallsleg lækkun um 16,1%.