Farnar voru um 56 ferðir frá Keflavíkurflugvelli í júlí að jafnaði og er það aukning um nærri þriðjung milli ára. Icelandair og Wow Air stóðu fyrir átta af hverjum tíu brottförum frá Keflavíkurflugvelli í júlí, að því er fram kemur á vef Túrista.

Í júlí fóru 546.749 farþegar um flugstöð Leifs Eiríkssonar og hafa aldrei verið jafn margir í einum mánuði. Farnar voru rúmlega sautján hundruð áætlunarferðir frá vellinum.

Tuttugu flugfélög héldu uppi áætlunarflugi í mánuðinum en þau voru sextán í júlí í fyrra. Þrátt fyrir fjölgun flugfélaga hefur vægi Icelandair og Wow Air nær ekkert breyst milli ára. Icelandair stóð fyrir nærri tveimur af hverjum þremur brottförum og sjöunda hver ferð var á vegum Wow Air.

Flugfélögin sem á eftir koma eru Easy Jet, með 3,5% hlutdeild, og Airberlin með 3,3%. Í fimmta sæti er SAS en 2,4% áætlunarferða um flugvöllinn voru á vegum félagsins.