Heildarhagnaður Nýherja nam 56 milljónum króna á fyrsta fjórðungi. Vöru- og þjónustusala á tímabilinu nam 2.859 milljónum króna. EBITDA Nýherja nam 191 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri.

„Síðastliðið haust var félaginu mörkuð ný stefna sem í fólst einföldun og hagræðingu á starfsemi með sölu eigna sem hafði litla samlegð með annarri starfsemi. Að auki var lögð áhersla á að styrkja þjónustu og efla lausnaframboð á fyrirtækjamarkaði á Íslandi. Þessi vinna er farin að skila sýnilegum árangri í bættri afkomu. Við erum sátt við uppgjör Nýherja á þessum fyrsta ársfjórðungi 2014 og munum halda áfram á þeirri braut sem nú hefur verið mörkuð,“ segir Finnur Oddsson forstjóri Nýherja.

Í tilkynningu frá Nýherja segir að horfur hjá Nýherjasamstæðunni séu ágætar. Gert er ráð fyrir áframhaldandi vexti í tekjum og afkomu dótturfélaga og áfram verður unnið að einföldun og styrkingu rekstrar Nýherja á innanlandsmarkaði.