Tæplega 58% svarenda í könnun MMR, sem unnin var fyrir útgáfufélagið Andríki, telja að íslensk stjórnvöld eigi að draga umsókn um aðild að Evrópusambandinu (ESB) til baka.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Andríki en könnunin var sem fyrr segir unnin af MMR dagana 8. – 10. júní. Spurt var; Hversu fylgjandi eða andvíg(ur) ertu því að íslensk stjórnvöld dragi umsókn um aðild að Evrópusambandinu til baka?

57,6% svarenda sögðust vera frekar eða mjög fylgjandi því að umsóknin verði dregin til baka. Einungis 24,3% svarenda sögðust vera frekar eða mjög andvígir því að draga umsóknina til baka en um 18% sagðist hvorki vera því fylgjandi né andvígur.

Lítill munur er á milli kynjanna hvað varðar afstöðu til fyrrnefndrar spurningar. Þegar horft er til aldurs er lítill munur á milli aldursbila hjá þeim sem eru fylgjandi því að draga umsóknina til baka. Þegar litið er til þeirra sem eru andvígir því að draga umsóknina til baka eru mun fleiri í aldurshópnum 50 – 67 ára (um 20%) en færri í aldurshópnum 18 – 29 ára (um 10%).

Hins vegar eru fleiri á landbyggðinni sem telja að draga eigi umsóknina til baka heldur en á höfuðborgarsvæðinu. Þannig eru rúm 63% sem segjast hlynntir því að draga umsóknina til baka sem búa á landsbyggðinni en um 54% á höfuðborgarsvæðinu. Þá er mest fylgi við því að draga umsóknina til baka á meðal bænda, sjómanna, ófaglærðra og stjórnenda en minnsta fylgið á meðal námsmanna, skrifstofufólks og sérfræðinga.

70% telja að fjármunum vegna umsóknarinnar sé illa varið

Í könnuninni voru þátttakendur jafnframt spurðir að því hvort þeir teldu þeim fjármunum, sem ætlaðir eru vegna kostnaðar við umsóknarferlið, vel eða illa varið.

Spurt var; Í skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis, frá því í maí síðastliðnum, kemur fram að gert er ráð fyrir að beinn kostnaður vegna aðildarumsóknar að Evrópusambandinu geti numið samtals 990 m.kr. á tímabilinu 2009-2012. Hversu vel eða illa telur þú að þeim fjármunum sé varið?

Samkvæmt niðurstöðu könnunarinnar telja einungis 19,9% svarenda að 990 milljónum króna sé frekar eða mjög vel varið í umsókn um aðild að ESB. Á hinn bóginn telja 66,9% þessum fjármunum frekar eða mjög illa varið í umsóknina.

Sjá könnunina í heild sinni