Í kjölfar sameiningar á rekstri Olíufélagsins, Bílanausts og fleiri fyrirtækja í eigu eignarhaldsfélagsins BNT hefur verið ákveðið að leggja af notkun vörumerkisins Esso á Íslandi segir í tilkynningu félagsins.

Þetta þýðir að frá og með miðjum apríl verða þjónustustöðvar, sem áður voru reknar undir merkjum Esso, reknar undir nýju nafni. Auk þessa munu Esso merkingar hverfa af birgðastöðvum og eldsneytisdælum um land allt. Á sama tíma verður endurnýjaður samningur við ExxonMobil um innflutning og sölu á Esso og Mobil smurolíum á Íslandi.

Næstu daga verður unnið við að fjarlægja merkingar af þjónustustöðvum og verslunum um land allt. Vörumerkin Olíufélagið, Bílanaust, Gúmmívinnustofan, Kúlulegusalan, Ísdekk, Hjólbarðahöllin, Bæjardekk Mosfellsbæ, Dekkið í Hafnarfirði, Hjólbarðaviðgerðin við Dalbraut og Hjól-Vest við Ægissíðu heyra því brátt fortíðinni til segir í tilkynningu.

?Við sameininguna verður til nýtt fyrirtæki sem mun veita mun fjölbreyttari þjónustu en þau fyrirtæki sem það er sett saman úr. Í okkar huga eru þetta það mikil tímamót að ákveðið var að kveðja nöfn gömlu fyrirtækjanna og leggja af stað í þessa ferð undir nýjum merkjum. Við erum að sjá eitt öflugasta verslunar- og þjónustufyrirtæki landsins verða til, eitt af 10 stærstu fyrirtækjum landsins með 35 milljarða veltu, um 730 starfsmenn og 115 útsölustaði um allt land", segir Hermann Guðmundsson forstjóri sameinaðs félags í tilkynningunni.

Tilkynnt var um fyrirhugaðan samruna á rekstri fyrirtækjanna í nóvember og hafa starfsmenn þeirra unnið að sameiningunni í vetur. Flutt verður í nýjar höfuðstöðvar 19. apríl næstkomandi.