Baráttan um forsetasæti í Bandaríkjunum er hafin af krafti með tilheyrandi kosningaloforðum. Meðal þess sem Joe Biden, sitjandi Bandaríkjaforseti, hefur lofað er hækkun skatta á ríkustu einstaklingana og fyrirtæki.

Það vekur þó athygli að samkvæmt greiningu sem Urban-Brookings Tax Policy Center vann fyrir New York Times hefur Biden heilt yfir lækkað skatta frá því hann tók við embættinu árið 2021. Er það metið að nettó skattalækkanir nemi 600 milljörðum dala yfir fjögurra ára tímabil.

Talsmaður Hvíta hússins segir í samtali við New York Times að Biden sé stoltur yfir því að hafa lækkað skatta fyrir miðstéttarfólk og vinnandi fjölskyldur á sama tíma og hann hafi barist fyrir því að stærri fyrirtæki greiði sinn hlut.