Jarðboranir eru að taka í notkun nýjan hátæknibor sem kom til landsins fyrir skömmu. Nýi borinn, sem nefnist Geysir, er öflugasti borinn í eigu félagsins og jafnframt sá stærsti og tæknilega fullkomnasti hér á landi. Borinn er keyptur af ítalska framleiðandanum Soilmec og er kaupverð hans ásamt fullum búnaði um 600 milljónir íslenskra króna. Kaupin koma til vegna vaxandi verkefna Jarðborana innanlands sem utan og mikilvægis þess að standast fjölþjóðlega samkeppni.

Helstu verkefni Geysis verða dýpri háhitaholur, allt að 4.000 m djúpar, en fyrsta verkefnið er fyrir Orkuveitu Reykjavíkur í tengslum við Hellisheiðarvirkjun. Í áhöfn Geysis verða 6 manns hverju sinni en heildarfjöldi starfsmanna á bornum verður 18 manns.

Lagaður að íslenskum aðstæðum

Geysir er af nýrri kynslóð vökvaknúinna bora sem hannaðir eru til borana eftir gufu, olíu, gasi og vatni og áhersla er lögð á mikla sjálfvirkni. Borinn er úfærður samkvæmt óskum sérfræðinga Jarðborana til að tryggja að hann henti sem best íslenskum aðstæðum.

Geysir kemur í góðar þarfir við stórverkefni en þeir borar sem Jarðboranir hafa keypt til landsins á undanförnum árum hafa verið mun minni. Við hönnun Geysis hefur verið lögð áhersla á borun hola niður á allt að 4.000 m dýpi, auk þess að bora víðari holur en þau tæki sem fyrir eru í borflota Jarðborana.

Hátæknvæddur og öruggur
Nýi borinn eykur hagkvæmni og öryggi framkvæmda, ásamt öryggi mannafla, enda er hann gríðarlega fullkominn tæknilega, nánast alsjálfvirkur. Geysir er búinn nýjasta stjórn- og tölvubúnaði, drifbúnaður hans er vökvaknúinn og fullkominn tölvubúnaður sér um skráningu hvers kyns upplýsinga um borun hverju sinni. Saga hvers borverks er alltaf aðgengileg, þannig að unnt er að fylgjast með öllum borþáttum í gegnum Netið.

Vinnuaðstaða á borunum er eins og best verður á kosið. Stjórnbúnaður, sjálfvirkni og fullkomið skráningarkerfi auka öryggi áhafnar, stuða að skilvirkni og auðvelda yfirsýn og ákvarðanatöku.

Tæknilegir yfirburðir borsins lúta ekki eingöngu að aukinni sjálfvirkni við borverk. Með nýrri tækni og nýjum búnaði, sem fylgir bornum, verða flutningar á milli borstaða auðveldari en ella og undirbúningur og upphaf borverka einfaldari.

Framleiðandi
Fyrirtækið Soilmec í borginni Piacenza á Ítalíu hannar og framleiðir borinn í samráði við Jarðboranir, sem eiga fyrir tvo bora frá sama framleiðanda, Sleipni og Sögu. Kaupverð nýja borsins ásamt fullum búnaði er um 600 milljónir íslenskra króna.