Tekjur Flögu Group á öðrum ársfjórðungi námu USD 8,7 milljónum sem er 61% aukning frá sama tímabili ársins 2004. Hafa ber í huga að SleepTech telst með í samstæðuuppgjörinu frá og með júnímánuði 2004 og eru tölur fyrra árs því ekki að fullu samanburðarhæfar. Innri tekjuvöxtur tímabilsins var 23%. EBITDA framlegð nam USD 535 þúsund eða 6% en var neikvæð um USD 268 þúsund á öðrum ársfjórðungi 2004. Hagnaður eftir skatta nam USD 50 þúsundum á ársfjórðungnum í samanburði við tap eftir skatta USD 318 fyrir sama tímabil fyrra árs.

Framlegð rekstrartekna var 63%, samanborið við 61% árið á undan. Rannsókna- og þróunarkostnaður er allur gjaldfærður og nam USD 915 þúsund eða 11% af tekjum á öðrum ársfjórðungi 2005, samanborið við USD 914 þúsund eða 17% af tekjum annars ársfjórðungs 2004. Stjórnunarkostnaður er nú færður í auknum mæli á kostnaðarverð seldra vara og þróunarkostnað og hefur framsetningu á tölum fyrra árs verið breytt til samræmis.

Tekjur fyrri helming ársins námu USD 16,9 milljónum í samanburði við USD 9,8 milljónir fyrir sama tímabil 2004. Tekjuaukningin var USD 7.1 milljón og innri vöxtur tímabilsins var 21%.

Framlegð rekstrartekna var 62%, samanborið við 60% árið á undan. Rannsókna- og þróunarkostnaður nam USD 2,1 milljónum eða 12% af tekjum á fyrstu sex mánuðum ársins. Eins og fram komu í afkomutilkynningu fyrsta ársfjórðungs þá var gjaldfært á fjórðungnum kostnaður við skipulagsbreytingar og uppsagnir vegna hagræðingaraðgerða hjá rannsókna- og þróunarsviði og Evrópudeild Medcare ásamt gjaldfærslu vegna starfslokasamninga stjórnenda segir í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

EBITDA framlegð fyrstu sex mánuði ársins var USD 55 þúsund en var neikvæð um USD 845 þúsund fyrir sama tímabil 2004. Tap eftir skatta fyrstu sex mánuði ársins nam USD 1 milljón samanborið við tap að upphæð USD 855 þúsund fyrir fyrra ár.

Efnahagsreikningur

Heildareignir þann 30. júní 2005 námu USD 62,6 milljónum, sem er aukning um USD 5,5 milljónir frá ársbyrjun. Aukninguna má að mestu rekja til USD 5 milljóna hækkun á hlutafé félagsins vegna árangurstengdrar greiðslu fyrir hluta af kaupverði bandaríska félagsins SleepTech.

Reiknuð skattinneign var eignfærð og nam USD 3 milljónum í lok annars ársfjórðungs 2005.

Eigið fé nam USD 41,3 milljón þann 30. júní, samanborið við USD 37,6 milljón í ársbyrjun. Eiginfjárhlutfallið var 66% sem er sama hlutfall og í árslok 2004.