Útflutningur þjónustu á fjórða ársfjórðungi í fyrra var, samkvæmt bráðabirgðatölum, 94,2 milljarðar en innflutningur á þjónustu 97,8 milljarðar. Þjónustujöfnuður við útlönd var því neikvæður um 3,6 milljarða á fjórða ársfjórðungi en neikvæður um 10,8 milljarða á sama tíma 2012 á gengi hvors árs.

Samgöngur eru stærsti þjónustuliður í útflutningi og afgangur vegna þeirrar þjónustu var 14,8 milljarðar. Önnur þjónusta er stærsti liður í innflutningi og nam halli á þeirri þjónustu 11,7 milljörðum. Halli á ferðaþjónustu var 6,7 milljarðar.

Samkvæmt bráðabirgðatölum var útflutningur á þjónustu 417 milljarðar á árinu 2013 en innflutningur á þjónustu 354 milljarðar. Þjónustujöfnuður við útlönd á árinu 2013 var því jákvæður um 62 milljarða en var jákvæður um 26 milljarða á árinu 2012 á gengi hvors árs.

Samgöngur skiluðu 85 milljarða afgangi og ferðaþjónusta skilaði 26 milljarða afgangi á árinu 2013 samkvæmt bráðabirgðatölum. Á móti kom að halli á annarri þjónustu var 48,3 milljarðar á árinu 2013.