Áætluð heildarupphæð í fyrirhuguðum útboðum þeirra opinberu aðila sem taka þátt á Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins (SI) 2023 nemur á þessu ári samtals 173 milljörðum króna. Það er um 65 milljarða króna aukning frá því sem sömu aðilar áætluðu að yrði boðið út á árinu 2022.

„Gangi áætlanir eftir er ljóst að opinberar framkvæmdir munu aukast um 60% milli ára og er það breyting frá samanburði milli 2022 og 2021 þegar var 15 milljarða króna samdráttur í fyrirhuguðum útboðum,“ segir í tilkynningu SI.

„Að mati Samtaka iðnaðarins er þessi aukning jákvætt framlag til hagvaxtar bæði á þessu ári og litið til framtíðar enda er mikilvægt að fjárfesting í efnahagslega mikilvægum innviðum sé næg og viðhaldi þeirra sinnt.“

Framkvæmdir að aukast

Á þinginu, sem fer fram í dag frá kl. 13-16 á Grand Hótel, kemur einnig fram áætluð fjárfesting í framkvæmdum opinberra aðila sem nemur 131 milljarði á árinu 2023 sem er um 12 milljörðum meira en áætlað var fyrir árið 2022. Með fjárfestingu er átt við þær framkvæmdir sem verður ráðist í á viðkomandi ári.

Fyrirhuguð fjárfesting í framkvæmdum á árinu 2022 nam 119 milljörðum en nýjar tölur gefa til kynna að þessir sömu aðilar hafi fjárfest í fyrra fyrir um 96 milljarða, sem er 23 milljörðum minna en fyrirhugað var í upphafi árs 2022.

„Gangi áætlanir þessara opinberu aðila eftir er ljóst að framkvæmdir þeirra munu aukast í ár eftir samdrátt á síðasta ári. Aukin útboð á milli ára eru einnig vísbending um metnaðarfull áform á þessu sviði. Að mati Samtaka iðnaðarins er mikilvægt að fjárfesting í efnahagslega mikilvægum innviðum sé næg og viðhaldi þeirra sinnt en með því er rennt stoðum undir hagvöxt framtíðarinnar. Ofangreind aukning í fjárfestingum og útboðum er því jákvætt framlag til hagvaxtar bæði á þessu ári og litið til framtíðar.“

Umfangsmestu útboð þessa árs boða Landsvirkjun, Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir (FSRE) og Vegagerðin.