Meðalútsvar á árinu 2013 verður samkvæmt fyrirliggjandi ákvörðunum sveitarfélaga 14,42% samanborið við 14,44% á árinu 2012. Það lækkar samkvæmt því um 0,02% á milli ára.

Þetta kemur fram á vef fjármálaráðuneytisins en ástæðuna fyrir lækkuninni má helst rekja til þess að útsvar á Álftanesi lækkar úr 14,48%, sem er hámarksútsvar, niður í 13,66% eftir sameiningu sveitafélagsins við Garðabæ sem tekur gildi um áramótin. Þá lækkar útsvar á Seltjarnarnesi um hálft prósentustig en útsvarið á nesinu hafði hækkað nokkuð árið 2010.

Staðgreiðsluhlutfall ársins 2013 verður þríþætt eftir fjárhæð tekna en það er form sem núverandi ríkisstjórn kom á laggirnar. Staðgreiðsluhlutfallið verður eins og síðustu ár37,32% á tekjur í fyrsta þrepi, 40,22% á tekjur í öðru þrepi og síðan 46,22% á tekjur í þriðja þrepi.

Sveitarfélögin geta samkvæmt lögum ákveðið útsvar á bilinu 12,44% til 14,48%. Af 74 sveitarfélögum leggja 65 á hámarksútsvar. Aðeins tvö sveitafélög, Skorradalshreppur og Ásahreppur, leggja á lágmarksútsvar, 12,44%. Aðeins tvö sveitafélög, Grindavík og Seltjarnarnes, lækka útsvar sitt um áramótin. Í Grindavík lækkar útsvarið úr 14,48% í 14,28% og á Seltjarnarnesi lækkar útsvarið úr 14,18% í 13,66%.