Hagnaður Isavia nam 3,2 milljörðum króna á síðasta ári sem er meira en fjórfaldur hagnaður ársins 2012. Félagið, sem er opinbert hlutafélag og alfarið í eigu ríkissjóðs, hefur frá árinu 2010 skilað um 6,6 milljarða króna hagnaði samkvæmt ársreikningum félagsins. Tekjur Isavia hafa hækkað um 5,7 milljarða eða 40% frá árinu 2010 og námu tekjur félagsins um 19,8 milljörðum króna á síðasta ári.

Hagnað félagsins á undanförnum árum ber þó að skoða í því ljósi að breytingar á gengi íslensku krónunnar geta valdið talsverðum sveiflum í afkomu félagsins. Hagnaður félagsins af gengisbreytingum nam um 1,6 milljörðum árið 2013 en gengistap félagsins var rétt undir milljarði króna bæði árið 2012 og 2011. Árið 2010 nam gengishagnaður 1,4 milljörðum. Þessar breytingar má rekja til þess að stór hluti skulda félagsins er í erlendri mynt. Um 4,3 milljarðar króna voru í evrum í lok árs 2013, 3,7 milljarðar í bandarískum dollurum, 3,5 milljarðar í svissneskum frönkum og um 2,2 milljarðar í öðrum erlendum myntum. Samtals námu langtímaskuldir Isavia um 15,9 milljörðum í árslok 2013 en þar af voru um 2 milljarðar í íslenskum krónum. Eignir í erlendum gjaldmiðlum námu í lok árs um milljarði króna.

Sé litið á afkomu félagsins leiðrétta fyrir þessum gengismismun má sjá að afkoman hefur farið úr 725 milljónum árið 2010 og upp í um 1,6 milljarða á árunum 2011 til 2013.

Þú getur lesið meira um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út 8. maí 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .