66°Norður opnar nýja 300 fermetra sérverslun í Nørreport í haust auk þess sem fyrirtækið mun opna verslun í Magasin du Nord í Árósum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Þar segir að þessar opnanir séu einungis hluti af stórsókn 66°Norður í Danmörku en nýlega skrifaði fyrirtækið undir samning við Danska herinn varðandi kaup á fatnaði.

Um er að ræða samning við Sirius herdeildina sem er sú deild sem ver nyrsta hluta Grænlands. Þessi hluti Grænlands er óbyggður að mestu og er umhverfið þar mjög erfitt yfirferðar og nýtir Sirius herdeildin m.a. hundasleða til þess að ferðast um.

„Eins og gefur að skilja er mikill kuldi þegar komið er svo norðarlega og því skiptir höfuð máli að klæðnaður hermannanna sé góður. Þar kemur fatnaður frá 66°Norður að góðum notum enda hágæða fatnaður hannaður fyrir erfiðustu aðstæður,“ segir í tilkynningunni.