Mikill meirihluti þeirra fyrirtækja sem ekki hafa skilað ársreikningum eins og lög kveða á um glíma við greiðsluerfiðleika og eru í alvarlegum vanskilum. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í svari Hákons Stefánssonar, framkvæmdastjóra Creditinfo, við spurningum sem varða tilnefningu á framúrskarandi fyrirtækjum ársins á vef Spyr.is .

Fram kom í fréttum um viðurkenningu Creditinfo að 20% fyrirtækja hafi ekki skilað ársreikningi.

Hákon var m.a. spurður að því hvort skilja megi þetta sem svo að þau 20% fyrirtækja sem ekki hafi skilað ársreikningum séu sömu fyrirtækin og eru í vanskilum. Hákon svarar:

„Fyrirtæki sem ekki hafa skilað ársreikningi eru ekki öll í alvarlegum vanskilum en þó er því þannig farið að 70% þeirra fyrirtækja eru í slíkum greiðsluerfiðleikum,“ segir hann.