Hagvöxtur í Kína mældist 7,5% á öðrum ársfjórðungi. Þetta er 0,1 prósentustigi meira en á fyrri fjórðungi. Hagvöxtur ber þess merki að aðgerðir stjórnvalda til að blása glæðum í efnahagslífið og keyra það áfram eru að skila árangri, að því fram kemur í umfjöllun breska útvarpsins (BBC) af málinu. Stjórnvöld hafa m.a. aukið framkvæmdafé til lestarsamgangna, lækkað eiginfjárkröfur lánveitenda og lækkað skatta.

BBC segir ljóst að hagkerfið sé á réttri leið eftir samdrátt í helsu viðskiptalöndum. Enn séu ýmsir óvissuþættir í veginum, s.s. titringur á fjármálamörkuðum og fasteignamarkaði.

IFS Greining fjallar um stöðuna í Kína í Morgunpósti sínum í dag. Þar segir m.a. að hagtölurnar séu í efri kantinum enda hafi miðgildi spáa gert ráð fyrir 7,4% hagvexti á fjórðungnum.