Alls voru 76 milljarða króna skuldir færðar frá SpKef yfir til Landsbankans þegar sparisjóðnum var rennt inn í bankann. Samkvæmt mati Landsbankans á virði eigna sjóðsins er eigið fé hans neikvætt um rúma 30 milljarða króna og eignir hans því metnar þar um 46 milljarða króna virði. Það er helmingi minna en þær voru metnar á í síðasta birta ársreikningi sjóðsins.

58 milljarða innlán

Landsbankinn segir umfang þeirra innlána sem færð voru frá SpKef, sem var reistur á rústum Sparisjóðsins í Keflavík, til Landsbankans  vera 58 milljarðar króna. Það er rúmlega þremur milljörðum krónum meira en tiltekið var í síðasta birta ársreikningi Sparisjóðsins.

Innlán sjóðsins jukust gríðarlega á árinu 2008. Á fyrri helmingi þess árs jukust þau um 6 milljarða króna og á þeim síðari um tæpa 10 milljarða króna. Ástæða þessa er meðal annars sú að sveitarfélög á Suðurnesjum ákváðu að styðja við einu fjármálastofnunina sem á rætur á svæðinu með því að leggja stórar innistæður inn hjá Sparisjóði Keflavíkur. Eftir bankahrun lagði Reykjanesbær til að mynda um 2,5 milljarða króna inn í sjóðinn og Grindavík um 3 milljarða króna.

Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar eru þær eignir sem færðar voru frá SpKef til Landsbankans metnar á um 46 milljarða króna. Þær hafa því rýrnað um helming frá síðasta birta ársreikningi.

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.