Almennur mælikvarði á atvinnuleysi uppá 2,6% gefur afar takmarkaðar upplýsingar um stöðuna á vinnumarkaðnum þar sem falið atvinnuleysi er enn hátt. Þetta kemur fram í efnahagsyfirliti VR sem birt var í dag.

Almennar mælingar á atvinnuleysi sýna að þeim fækkar sem teljast atvinnulausir á sama tíma og fleiri eru nú við störf en áður. Þannig er vinnumarkaðurinn að nálgast hratt stöðuna fyrir hrun þar sem mikla vinnu var að fá og atvinnuleysi lítið. Samkvæmt VR eru þó fjölmargir einstaklingar enn hluti af þeim hópi sem fellur undir falið atvinnuleysi en þeim hefur þó fækkað frá því þegar verst lét í kringum 2012.

Skilgreining á atvinnuleysi of þröng

Félagið segir skilgreiningu á atvinnuleysi of þrönga. Sem dæmi er aðili sem hefur gefist upp á að leita sér að vinnu en er tilbúinn að vinna, ekki talinn atvinnulaus. Á fyrsta ársfjórðungi 2016 voru 8.000 manns tilbúin að vinna en ekki að leita. Á sama tíma voru 6.100 manns sem uppfylltu skilgreininguna á því að teljast atvinnulaus.

Á fyrsta ársfjórðungi 2016 var falið atvinnuleysi 7,7%  samkvæmt tölum VR samanborið við 2,6% atvinnuleysi. Stór hluti þeirra sem falla undir falið atvinnuleysi eru þeir sem virðast hafa gefist upp á að leita að atvinnu en eru engu að síður tilbúnir að vinna. Á fyrsta ársfjórðungi voru þeir sem tilbúnir eru að vinna en hættir að leita 3,4% af mannfjölda og því ljóst að almenni mælikvarðinn á atvinnuleysi uppá 2,6% gefur afar takmarkaðar upplýsingar um stöðuna á vinnumarkaði.

Atvinnuleysi erlendra ríkisborgara enn hátt

Árin fyrir hrun var atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara að jafnaði minna en atvinnuleysi meðal íslenskra ríkisborgara. Eftir hrun jókst atvinnuleysi þeirra umtalsvert meira en meðal íslenskra ríkisborgara og fór hæst í 15,4% á meðan atvinnuleysi fór hæst í 9,1% meðal íslenskra ríkisborgara. Í lok árs 2015 var atvinnuleysi erlendra ríkisborgara 5,5% en 2,2% hjá íslenskum.