Hagnaður Lánasjóðs sveitarfélaga nam 777 milljónum króna á árinu 2017. Það er tæplega 206 milljónum króna lægri hagnaður en árið á undan þegar hann nam 983 milljónum króna. Munurinn skýrist þó á óreglulegum liðum en lánasjóðurinn tekjufærði kröfur á gjaldþrota fjármálastofnanir upp á rúmar 270 milljónir í fyrra.

Af reglubundinni starfsemi er rekstrarniðurstaða ársins 2017 ríflega 60 milljónum króna betri en árið á undan.

Heildareignir lánasjóðsins 85,7 milljörðum króna og hækkuðu um 7,7 milljarða á milli ára. Skuldirnar jukust jafnframt um 7,3 milljarða og námu 68,2 milljörðum í lok ársins. Eigið fé nam 17,5 milljörðum samanborið við 17,2 milljarða árið 2016.

Eiginfjárhlutfallið í lok árs 2017 var því 20,4% og lækkar um 1,7 prósentustig á milli ára. Ef hins vegar er miðað við áhættugrunn í eiginfjárútreikningum er eiginfjárhlutfall sjóðsins 97% og hækkar um 12 prósentustig milli ára.

Handbært fé lánasjóðsins ríflega tvöfaldaðist á milli ára en það nam tæpum 12,1 milljarði í lok árs 2017 samanborið við tæpa 5,9 milljarða í lok árs 2016.