Af þeim 2,2 milljörðum króna sem úthlutað hefur úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða síðustu fjögur ár hafa aðeins tæpir 1,4 verið nýttir. Samkvæmt nýrri reglugerð má Ferðamálastofa stöðva greiðslur eða afturkalla styrki ef framvinda verkefna er ófullnægjandi

Í skýrslu Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, kemur fram að meiri fjármunum hafi verið veitt í sjóðinn en hægt hafi verið að framkvæma fyrir. Mismunurinn er reyndar mikill því frá 2012 til og með árinu 2015 var styrkjum upp á 2.198 milljónir króna úthlutað. Sjóðurinn hefur hins vegar aðeins greitt út 1.369 milljónir, sem þýðir að 829 milljónir eru enn bundnar í sjóðnum vegna verkefna sem hafa annað hvort ekki farið af stað eða er ekki lokið.

Á þessu fjögurra ára tímabili hefur sjóðurinn úthlutað fé til 448 verkefna víðsvegar um land en einungis er búið að ljúka 188 þeirra — 260 verkefnum er ólokið.

„Helstu ástæður sem gefnar eru á töfum eru skipulagsmál, tímafrek hönnunarvinna, deilur milli landeigenda, skortur á mótframlagi og skortur á verktökum eða mannafla til að vinna verkin," segir í skýrslunni.
Má afturkalla styrki

Í skýrslu ráðherra kemur fram að í byrjun þessa árs hafi ráðherra gefið út nýja reglugerð um starfsreglur Framkvæmdasjóðsins, „þar sem mótframlag til svæða í eigu og umsjón ríkisins er fellt niður og mótframlag til svæða í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila er lækkað úr 50% í 20%. Er það gert til að liðka fyrir uppbyggingu á ferðamannastöðum".

Enn fremur vinnur Ferðamálastofa nú að því að fara yfir eldri styrki með það að markmiði að tryggja betri nýtingu fjármuna. Í reglugerðinni eru til dæmis ákvæði sem auðvelda Ferðamálastofu að stöðva greiðslur eða afturkalla styrki ef framvinda verkefna er ófullnægjandi.

Í morgun barst tilkynning frá atvinnuvegaráðuneytinu um að búið væri að úthluta styrkjum úr sjóðnum fyrir þetta ár eins og lesa má í þessari frétt .

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .