HS Veitum er óskylt að greiða HS Orku langtímakröfu vegna lífeyrisskuldbindingar. Þetta er niðurstaða Hæstaréttar sem kvað upp dóm sinn í gær og staðfesti með því dóm Landsréttar. Krafan nam rúmum 833 milljónum króna samkvæmt ársreikningi HS Orku vegna síðasta rekstrarárs en ljóst er að meiri kostnaður mun falla á félagið.

Fyrirrennari HS Orku og HS Veitna var félagið Hitaveita Suðurnesja sem varð til við sameiningu Hitaveitu Suðurnesja, Rafveitu Hafnarfjarðar og Bæjarveitna Vestmannaeyja. Árið 2008 var HS Veitum skipt úr Hitaveitu Suðurnesja og nafni síðarnefnda félagsins breytt í HS Orka.

Fram til ársins 2001 áttu starfsmenn fyrirrennaranna þriggja aðilar að lífeyrissjóðum sem byggðu á eftirmannsreglu. Það þýðir að greiðslurnar eru ákveðnar sem eftirlaun og taka mið af starfstíma og launum sem nú eru greidd fyrri sama starf. Ávöxtun og iðgjöld hafa engin áhrif á greiðslur úr sjóði.

Þremur árum eftir uppskiptinguna, það er árið 2011, gerðu félögin tvö með sér samkomulag um að HS Veitur tæki á sig að brúa sextíu prósent af lífeyrisskuldbindingu HS Orku. Greitt var samkvæmt samkomulaginu út árið 2015 en þá sögðu HS Veitur samningnum upp. Krafan hefur hækkað ár frá ári en hún var 742 milljónir í árslok 2017 en 833 milljónir í árslok 2018. Hlutdeild HS Veitna í hækkun lífeyrisgreiðslnanna, að mati HS Orku, var 95 milljónir á síðasta ári og því ljóst að kostnaður HS Orku ár hvert er vel á annað hundrað milljónir.

Í héraði var fallist á kröfur HS Orku samkvæmt samningnum en þeim dómi snúið af Landsrétti. Bent var á að HS Veitur væri í sérleyfisrekstri og gæti því ekki tekið á sig skuldbindingar nema eðlilegt gagngjald kæmi fyrir. Gerningurinn fæli í sér niðurgreiðslur á kostnaði félags í samkeppnisrekstri, þ.e. HS Orku, með fé félags sem nyti sérleyfis og væri háð gjaldskrá sem tryggja ætti greiðslu alls rekstrarkostnaðar.

Ekki hægt að semja um yfirtöku með samningi eftir skiptingu

Í dómi Hæstaréttar var vikið að skiptingaráætlun Hitaveitu Suðurnesja en lög um hlutafélög kveða á um að í skiptingaráætlun skuli vera nákvæm lýsing á þeim eignum og skuldum, sem yfirfæra skuli og úthlutað til hvers viðtökufélags.

„Eins og áður greinir var við ákvörðun um skiptingu Hitaveitu Suðurnesja hf. í félögin tvö stuðst við endurskoðaðan ársreikning félagsins árið 2007 og kannaðan árshlutareikning fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2008. Jafnframt kom fram í greinargerð með áætluninni að með henni fylgdi kannaður skiptingarefnahagsreikningur sem sýndi „allar eignir og skuldir“ í félögunum. Í öllum þessum samtímagögnum var lífeyrisskuldbinding sú, er aðilar deila um, talin til skuldar hjá áfrýjanda. Hið sama kom fram í ársreikningi áfrýjanda 2008 og skýringum með honum, en ágreiningslaust er að hann hafi verið samþykktur í mars árið 2009. Samkvæmt þessu og að virtum þeim ströngu reglum sem gilda um tilgreiningu eigna og skulda í skiptingaráætlun verður að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að um skiptingu þeirra skyldi í hvívetna farið á þann hátt sem þar var kveðið á um, enda er markmiðið með hinni nákvæmu tilgreiningu eigna og skulda að enginn vafi leiki á um skiptinguna,“ segir í dómi Hæstaréttar.

Dómurinn sló því föstu að lögformlegri skiptingu, sem gerð er á grunni hlutafélagalaga, verði ekki breytt eftir á nema með því að endurtaka skiptingarferlið eftir því sem lög leyfa. Samningur um yfirtöku á lífeyrisskuldbindingum var því metinn ólögmætur og óskuldbindandi. Ekki var gerð krafa um málskostnað á neinu dómstigi.