Í hverjum einasta mánuði frá áramótum hefur verið slegið met í fjölda flugtíma hjá flugklúbbnum Geirfugli.

Að sögn Matthíasar Sveinbjörnssonar, formanns og eins stofnenda Geirfugls, fjölgaði flugtímum verulega eftir að eldsumbrotin hófust í Fimmvörðuhálsi þann 20. mars sl. Eftir að gosið hófst í Eyjafjallajökli dró hins vegar úr flognum tímum en aðeins fyrstu dagana eftir að gosið hófst.

Að sögn Matthíasar hafði flugtímum hjá klúbbnum fjölgað um 84% á milli ára fyrstu fimm mánuði ársins um síðustu mánaðarmót. Helst sé um að ræða flugtíma hjá klúbbmeðlimum Geirfuglar en þá sé enn töluverður áhugi á kennsluflugi. Matthías segir að um 1/3 hluta af aukningunni megi rekja til aukins kennsluflugs.

Geirfugl var með um 20% markaðshlutdeild í einkaflugmannskennslu í fyrra og aðspurður segir Matthías það hafi ekki minnkað þrátt fyrir innkomu fleiri aðila á markaðinn. Nú sé eftirspurnin jafnframt það mikil að til standi að bæta við kennslu á bóklegum hluta einkaflugmannsprófsins í sumar.