Af 35 félögum sem eru skráð á Aðallista Kauphallar Íslands hefur gengi níu félaga hækkað um meira en 100% frá áramótum. Þar af eru sjö félög í Úrvalsvísitölu Kauphallar Íslands. Hlutabréfaverð Fjárfestingarfélagsins Atorku hf. hefur hækkað mest eða um 205,6% en gengi bréfa félagsins hækkaði enn frekar á föstudag eða um 18,18% og var dagslokaverð á föstudag 6,50 sem er hæsta verð með bréf félagsins.

Jafnframt hækkaði gengi bréfa Fjárfestingarfélagsins Atorku hf. mest allra félaga í Kauphöll Íslands í vikunni eða um 36,55%. Það sem af er ári hefur félagið unnið í yfirtöku á þremur félögum sem öll voru (eru) skráð á Aðallista Kauphallar Íslands. Þessi félög eru Líf hf., Afl fjárfestingarfélag hf. og Sæplast hf. en yfirtaka á tveimur síðast nefndu félögunum stendur nú yfir.

Byggt á upplýsingum úr Vikufréttum MP fjárfestingabanka.