Reitir töpuðu 9,6 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins eftir skatta. Um er að ræða umtalsverða aukningu frá sama tímabili í fyrra þegar félagið tapaði 1,8 milljarði á fyrstu sex mánuðum ársins. Helstu hluthafar félagsins eru Eignabjarg, dótturfélag Arion banka, Landsbankinn og Landic Property.

Samkvæmt tilkynningu frá félaginu er rekstrarafkoma Reita á fyrstu sex mánuðum ársins 2012 fyrir fjármagnsliði og matsbreytingu fjárfestingaeigna í takt við áætlun ársins og telst vel viðunandi. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og matsbreytingu fjárfestingaeignanam 2,7 milljörðum króna. Hrein fjármagnsgjöld námu hins vegar um 3,8 milljörðum og vega því upp rekstrarhagnaðinn.

Endurmat eigna

Stjórn og stjórnendur Reita ákváðu að endurmeta eignasafn félagsins eftir að fasteignafélagið Reginn var skráð í kauphöllina fyrr í sumar. Endurmat fjárfestingaeigna Reita skilaði rúmlega 10 milljarða lækkun á eignum félagsins. Í lok júní 2012 námu heildareignir félagsins 86.555 millj. kr. samanborið við 96.163 millj. kr. um áramót. Eigið fé félagsins nam 9.870 millj. kr. í lok tímabilsins og vaxtaberandi skuldir 73.083 millj. kr. Til stendur að skrá Reiti í kauphöllina og er unnið að undirbúningi skráningar.

Reitir II tapaði þremur milljörðum

Reitir II, dótturfélag Reita, hefur einnig skilað uppgjöri fyrir fyrstu sex mánuði ársins. Þar kemur fram að félagið tapaði rúmlega 3 milljörðum króna á tímabilinu. Móðurfélagið Reitir hf. á sjö dótturfélög utan um fasteignir sínar, Reitir I ehf., Reitir II ehf., Reitir III ehf., Reitir IV ehf., Reitir V ehf., Reitir VI ehf. og Reitir VII ehf. Á meðal fasteigna í félögum Reita er Kringlan, Hótel Hilton Nordica, Holtagarðar og Spöngin.