Verðmætaaukning Samherja samstæðunnar af skráningu Síldarvinnslunnar á markað og hækkun hlutabréfaverðs í Kauphöllinni á árinu nemur um 58 milljörðum króna. Alls eiga systurfélögin Samherji og Samherji Holding um 90 milljarða króna eignarhlut í skráðum félögum en Samherji á um þriðjungshlut í bæði Síldarvinnslunni og Eimskipi auk þess að vera meðal stærstu hluthafa í Sjóvá og Högum.

Samanlagt eigið fé Samherja og Samherja Holding næmi um 190 milljörðum króna eftir hækkanir ársins bókfærði Samherji hluti í öllum skráðum félögum út frá markaðsvirði þeirra. Til samanburðar var bókfært eigið fé Arion banka 195 milljarðar og bókfært eigið fé Íslandsbanka 197 milljarðar króna í lok september.

Síldarvinnslan þrefalt verðmætari en bókfært verð

Mestu munar um hlutinn í Síldarvinnslunni sem Samherji hefur hingað til bókfærður út frá hlutdeild í eigin fé Síldarvinnslunnar. 45% hlutur Samherja í Síldarvinnslunni var þannig metinn á tæplega 22 milljarða króna í árslok 2020. Viðskipti með bréf Síldarvinnslunnar fara nú fram á um þrefalt hærra gengi.

Þegar Síldarvinnslan var skráð á markað í byrjun sumars seldi Samherji 12% hlut á ríflega 12 milljarða króna. 32,6% hlutur Samherja í Síldarvinnslunni sem eftir stendur er nú um 52 milljarða króna virði eftir 57% á gengi Síldarvinnslunnar frá skráningu.

Því til viðbótar var félagið SVN eignafélag, sem er stærsti hluthafi Sjóvá með 14,5% hlut, greiddur út í arð til hluthafa Síldarvinnslunnar fyrir skráninguna. Hlutabréfaverð í Sjóvá hefur hækkað um 49% á árinu sem hefur í för með sér að óbeinn 6,5% eignarhlutur Samherja í Sjóvá er meira en 900 milljónum króna verðmætari en í upphafi ársins. Með söluandvirði Samherja á 12% hlut í Síldarvinnslunni í vor, arðgreiðslunni á hlutnum í Sjóvá og hækkun á gengi bréfa Síldarvinnslunnar frá skráningu má áætla að verðmæti hlutar Samherja í Síldarvinnslunni nemi um 68 milljörðum króna króna.

Samherja var skipt upp í tvö félög árið 2018, þar sem erlend starfsemi Samherja var færð í félagið Samherja Holding ásamt eignarhluta félagsins í Eimskipi, sem tvöfaldast hefur að virði á þessu ári og nemur um 30 milljörðum króna. Aðaleigendur Samherja, Kristján Vilhelmsson, Þorsteinn Már Baldvinsson og Helga S. Guðmundsdóttir, afhentu börnum sínum hluti sína í Samherja í fyrra en eiga enn Samherja Holding. Um áramótin var bókfært eigið fé Samherja um 79 milljarðar en Samherja Holding um 59 milljarðar króna.

Ítarlega er fjallað um stærstu fjárfestana á íslenskum hlutabréfamarkaði í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .