Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 1,67% það sem af er degi og er 5.735,51 stig, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni.

Ef fram heldur sem horfir verður þetta fjórði dagurinn í röð sem Úrvalsvísitalan hækkar. Síðustu vikuna hefur hún hækkað um 6% en ef miðað er við frá áramótum nemur hækkunin 3,65%.

Greiningardeild Glitnis spáir 20% hækkun vísitölunnar á þessu ári og er viðsnúningurinn á hlutabréfamarkaði í samræmi við þær væntingar.

Actavis Group hefur hækkað um 4,76%, FL Group hefur hækkað um 3,02%, Straumur Burðarás hefur hækkað um 2,37%, Atorka Group hefur hækkað um 1,75% og Glitnir hefur hækkað um 1,74%.

?Líkast til eru fjárfestar farnir að horfa til næstu uppgjöra félaganna en að okkar mati gefur undirliggjandi rekstur félaganna ekki tilefni til annars en bjartsýni um niðurstöður þeirra," segir greiningardeild Glitnis.

Fjögur fyrirtæki hafa lækkað það sem af er degi. Dagsbrún hefur lækkað um 1,33%, Atlantic Petroleum hefur lækkað um 0,68%, Icelandic Group hefur lækkað um 0,56% og Marel hefur lækkað um 0,41%.

?Minni fjárfestar hafi verið mun fyrirferðameiri á markaðnum síðustu mánuði en á liðnu ári. Margir þeirra komu inn á markaðinn með krafti í upphafi árs en hröktust síðan frá honum í lækkunarhrinunni sem hófst í febrúar. Stærri fjárfestar hafa meira haldið að sér höndunum í þessari sveiflu hlutabréfamarkaðarins á árinu," segir greiningardeild Glitnis.

Gengi krónunnar lækkar um 0,29% og er gengisvísitalan 128,81 stig.