Úrvalsvísitalan [ OMXI15 ] hefur lækkað um 3,4% og er 4.655 stig við hádegi. Gengi krónu hefur veikst um 3,3% og er 151,7 stig, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis.

Velta á hlutabréfamarkaði nemur 2,9 milljörðum króna, á sama tíma nemur velta á skuldabréfamarkaði 24,2 milljörðum króna.

Má rekja þessa lækkanir til kaupa JP Morgan á Bear Stearns, sem var að glíma við mikinn lausafjárvanda, fyrir 7% af markaðsverði fyrir lok viðskipta á föstudag, en þá hafði verðið þegar lækkað um nær helming innan dagsins.

Danska vísitalan OMXC hefur lækkað um 2%, norska vísitalan OBX hefur lækkað um 2,6% og sænska vísitalan OMXS hefur lækkað um 3,1%.

Century Aluminiun [ CENX ] er eina félagið sem er grænt, hefur hækkað um 0,1%, í tveimur viðskiptum.

FL Group  [ FL ] leiðir lækkunina, hefur fallið um 9%, en fjárfestingafélagið er næmt fyrir hræringum á hlutabréfamarkaði, Föroya banki [ FO-BANK ]  hefur lækkað um 6,7%, Eik banki [ FO-EIK ] hefur lækkað um 6,4%, Exista [ EXISTA ] hefur lækkað um 5,9% og Atlantic Petroleum [ FO-ATLA ] hefur lækkað um 4,5%.