Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,58% og er 6.272 stig við hádegi, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Veltan nemur 3.373 milljónum króna.

Hækkunin kemur í kjölfar frétta af sölu Björgólfs Thors og fleira fjárfesta á tékkneska fjarskiptafélaginu C-Ra, að sögn greiningardeildar Glitnis.

?Óstaðfestar heimildir herma að söluhagnaður af C-Ra nemi um 80 milljörðum króna en auk Björgólfs Thors séu Landsbankinn og Straumur-Burðarás meðal seljenda. Landsbankinn hefur staðfest að hafa verið meðal hluthafa í félaginu.

Straumur-Burðarás hefur staðfest að hafa átt rúmlega 4% hlut í félaginu en að hagnaður af sölunni gefi ekki tilefni til sérstakrar tilkynningar frá félaginu eða endurskoðunar á áætlunum ársins. Hvort sem meintur söluhagnaður er orðum aukinn eður ei er árangurinn mjög ánægjulegur fyrir téða hluthafa í C-Ra. Salan á félaginu mun því hafa jákvæð áhrif á afkomu Landsbankans og Straums-Burðaráss fjárfestingabanka á fjórða fjórðungi en ekki er á núverandi tímapunkti hægt að fullyrða hversu sterk áhrifin verða,? segir greiningardeild Glitnis.

Landsbankinn hefur hækkað um 1,52%, Atorka Group hefur hækkað um 0,64%, Kaupþing banki hefur hækkað um 0,61%, Straumur-Burðarás hefur hækkað um 0,58% og 365 hefur hækkað um 0,54%.

Eimskip hefur lækkað um 0,64% og Exista hefur lækkað um 0,46%.

Gengi krónu hefur styrkst um 0,25%.