[Úrvalsvísitalan [ OMXI15 ] hefur lækkað um 0,5% og er 4.628 stig við hádegi. Gengi krónu hefur veikst um 1,75% stig og er 155,4 stig. Í gær veiktist króna um 7%.

Veltan nemur 4,9 milljörðum króna á hlutabréfamarkaði. Velta á skuldabréfamarkaði nemur 40,5 milljörðum króna.

„Í Evrópu opnuðu markaðir grænir og vorlegir og hafa landsvísitölur hækkað um 1%-2,5%. Hlutabréf hafa hækkað á flestum mörkuðum í Asíu í nótt um allt að 2% en þar líkt og víðast hvar lækkuðu mikið innan dags og  til að mynda féll Hang Seng vísitalan í Hong Kong um 6,5%. Það er fyrst og fremst viðnám á mörkuðum í Bandaríkjunum í gær sem veldur viðsnúningi á mörkuðum í Evrópu og Asíu í dag. Markaðir opnuðu eldrauðir vestanhafs í gær en komu svo að mestu leyti til baka og lokuðu helstu vísitölurnar mun betur en búist hafði verið við. Dow Jones og S&P vísitölurnar stóðu nánast í stað en Nasdaq lækkaði um 1,6%," segir greiningardeild Glitnis.

Flaga Group [ FLAGA ] hefur hækkað um 3,4%, Kaupþing [ KAUP ] hefur hækkað um 0,9%, Icelandair [ ICEAIR ] hefur hækkað um 0,21% og Alfesca[ A ] hefur hækkað um 0,2%.

FL Group [ FL ] hefur lækkað um 8% en félagið lækkaði um 13% í gær, Atlantic Petroleum [ FO-ATLA ] hefur lækkað um 6,8%, Föroya banki [ FO-BANK ] hefur lækkað um 2,8%, Eik banki [ FO-EIK ]  hefur lækkað um 2,7% og Eimskip [ HFEIM ] hefur lækkað um 2,7%.