Eins og dyggir lesendur Viðskiptablaðsins vita þá ráðlagði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) Lettum að leyfa gengi gjaldmiðils síns að falla er stjórnvöld landsins fylgdu í kjölfar Íslendinga og báðu hann um neyðaraðstoð.

Ráðgjöf IMF var ekki fylgt eftir af því að Evrópusambandið var ekki reiðubúið að taka þátt í björgunarpakkanum og fengju Lettar grænt ljós að snúa baki við aðlögunarferlinu að upptöku evru.

Þeir sem hafa lagt á sig að fræðast um gjaldeyriskreppur á síðari hluta tuttugustu aldar vita að þær eru sjaldnast leystar án þess að til meiriháttar gengisfellingar komi – og gildir einu hvort hinn frjálsi markaður kallar gengisfellinguna fram eða að henni er handstýrt af stjórnvöldum.

En af ofangreindum ástæðum geta Lettar ekki látið gengið falla enda þurfa þeir á hjálp annarra Evrópuríkja að halda. Undir öðrum kringumstæðum myndu stjórnvöld í landinu leyfa genginu að falla og þar með bæta samkeppnisstöðu hagkerfisins þar til að jafnvægi næðist.

En þess í stað þurfa stjórnvöld í Riga að reiða sig á lækkun nafnlauna og meiriháttar samdrátt í ríkisútgjöldum.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í erlendri fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .