Ein forsenda þess að fimmta endurskoðun efnahagsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og íslenskra stjórnvalda verði tekin fyrir er að ríkisstjórnin samþykki nýja áætlun um afléttingu gjaldeyrishafta fyrir febrúarlok. Vinna við slíka áætlun er nú á lokkasprettinum og má gera ráð fyrir að hún verði með talsvert öðru sniði en áætlunin sem birt var sumarið 2009.

Þetta segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. „Einnig hafa stjórnvöld skuldbundið sig til að ljúka endurfjármögnun sparisjóða fyrir febrúarlok, og mánuði seinna hyggjast þau birta tveggja ára áætlun um endurskipulagningu sparisjóðakerfisins með það fyrir augum að tryggja rekstrarhæfi þess til lengri tíma litið. Loks áforma stjórnvöld að færa Íbúðalánasjóð að fullu undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins og á að leggja fram lagafrumvarp þar að lútandi fyrir lok marsmánaðar. Raunar hafði einnig verið gert ráð fyrir því að endurfjármögnun sjóðsins yrði lokið fyrir áramót, en dregist hefur að ganga frá henni og væri þarft verk að binda endahnútinn þar á,“ segir í Morgunkorni.

Fimmta endurskoðun verður að öllum líkindum tekin fyrir í stjórn sjóðsins í apríl næstkomandi.