Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir Áætlun um losun gjaldeyrishafta bera með sér merki að hún er skrifuð á tímum þar sem ekki er til staðar pólitísk samhljóðan um hvað taki við eftir höftin. Þetta segir Árni Páll aðspurður um þá gagnrýni sem áætlunin hefur hlotið. Fjallað er um málið í úttekt í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

Hann segir að slíka samhljóðan þurfi að byggja eins mikið og hægt er. „Þar þurfum við að vera raunsæ. Það kann að vera að ef ekki næst aðild að ESB að krónan sé óhjákvæmileg afleiðing. En það felur í sér ákveðið val. Það verður þá ekki raunsætt að byggja velsæld á viðkvæmum samkeppnisiðnaði sem þolir litlar hömlur á frjálsum fjármagnsflutningum. Okkar skilaboð eru þá þau að við ætlum ekki að búa til kjöraðstæður fyrir fyrirtæki á borð við CCP og Marel til lengri tíma litið,“ segir Árni Páll.

„Það felst í því val að vera með íslenska krónu og það besta sem við getum gert er að draga úr sveiflum hennar. Við þurfum þó áfram að gera ráð fyrir að byggja velsæld af afkomu af greinum sem eru ekki háðar íslensku krónunni, eins og við höfum gert á undanförnum áratugum. Krónuhagkerfið hefur ekki skilað útflutningstekjum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.