Aðalsteinn E. Jónasson hefur gengið til liðs við LEX sem lögmaður og meðeigandi með fjármála- og félagarétt að sérsviði. Tilkoma Aðalsteins styrkir sérhæfða þjónustu LEX á sviði banka-, fjármála og félagaréttar en á stofunni eru þegar nokkrir sérfræðingar á því sviði.

Aðalsteinn hefur víðtæka reynslu sem fræðimaður í lögfræði og starfandi lögmaður. Hann útskrifaðist frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1992, varð héraðsdómslögmaður 1993, hæstaréttarlögmaður 1998 og lauk meistaragráðu í lögum (LL.M) frá Harvard-háskóla árið 2000, þar sem hann hann sérhæfði sig í alþjóðlegri löggjöf um fjármagnsmarkaði.

Aðalsteinn hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa. Þar á meðal má nefna að árið 2007 var hann skipaður varaformaður stjórnar Persónuverndar og árið 2009 skipaði viðskiptaráðherra hann formann úrskurðarnefndar verðbréfamiðstöðva.

Samhliða störfum sínum hjá LEX mun Aðalsteinn áfram sinna kennslu- og fræðistörfum sem dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík þar sem hann hefur starfað frá árinu 2002. Aðalsteinn hefur skrifað fjölda ritrýndra fræðigreina og bókakafla á sviði fjármálaréttar og nýverið kom út eftir hann bókin Viðskipti með fjármálagerninga.

Aðalsteinn er kvæntur Ásdísi Höllu Bragadóttur og eiga þau þrjú börn, tvo syni og nýfædda dóttur.