Actavis hefur hafið sölu á hjartalyfinu Ramipril í Frakkland en einkaleyfisvernd lyfsins hefur runnið út. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

Medis, dótturfélag Actavis, selur lyfið til þriðja aðila og fer það því í sölu undir merkjum annarra lyfjafyrirtækja. Fyrstu afhendingar nema tæpum 20 milljónum hylkja í fjórum styrkleikum og innan tíðar fara Ramipril-töflur frá Actavis einnig í sölu í Frakklandi.

Ramipril er í flokki hjarta- og æðasjúkdómalyfja. Sala lyfsins á heimsvísu hefur aukist mikið síðustu ár vegna aukins nýgengis hjartasjúkdóma í vestrænum löndum og einnig í kjölfar niðurstaðna rannsókna sem sýnt hafa fram á aukið notagildi lyfsins hjá fólki með áhættuþætti hjartasjúkdóma.

Einkaleyfisvernd lyfsins féll úr gildi í flestum Evrópulöndum í janúar 2004. Actavis hóf þegar sölu lyfsins í þeim löndum og er Ramipril í dag meðal söluhæstu lyfja félagsins.

Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, framkvæmdastjóri Sölu til þriðja aðila hjá Actavis, segir samheitalyfjamarkaðinn í Frakklandi hafa vaxið mest allra markaða í Evrópu hin síðustu ár og því hafi Medis unnið markvisst að sölumálum til þriðja aðila þar í landi.

Með sölu Ramipril telur Guðbjörg Edda að markaðshlutdeild Medis í Frakklandi muni geti aukist töluvert og segir að þessi markaður sé nú þegar orðinn einn af mikilvægustu mörkuðum Medis.