Actavis hefur sett ofnæmislyfið Cetrizine á markað í Rússlandi í styrkleikaflokknum 10 mg. Lyfið hefur verið á markaði á Íslandi í nokkur ár en það fékk markaðsleyfi hér 1997. Dótturfélag Actavis, Medis, sem sér um sölu til þriðja aðila, setti lyfið á markað árið 2002. Unnið er að skráningu lyfsins á öðrum mörkuðum fyrirtækisins, svo sem í Úkraínu, Moldavíu og í Hvíta-Rússlandi og er búist við að það verði markaðssett þar í byrjun næsta árs.

Til viðbótar verður blóðþrýstingslyfið Fosinopril sett á markað í Rússlandi í lok október. Fosinopril, sem er framleitt í verksmiðju Actavis á Íslandi, var fyrst sett á markað í júlí á þessu ári í þrem löndum þegar einkaleyfi þess féll úr gildi. Lyfið er markaðssett í tveimur styrkleikum (10 mg og 20 mg) og er fyrsta afhending rúmlega tvær milljónir taflna.

Þessar nýju vörur eru að sögn Jónasar Tryggvasonar, framkvæmdastjóra Actavis í Moskvu, mikilvæg viðbót við vöruúrval félagsins. ?Félagið er smám saman að byggja upp sterka vörulínu nýlegra lyfja sem styrkir stöðu þess sem alþjóðlegur söluaðili hágæðalyfja.?

Alls starfa rúmlega 200 manns hjá Actavis í Rússlandi og nálægum löndum. Starfseminni er stýrt frá Moskvu en sex skrifstofur eru á svæðinu, í Moskvu, Hvíta-Rússlandi, Úkraínu, Kasakstan, Mongólíu og Georgíu.