Actavis hefur keypt lyfjaverksmiðju indverska lyfjafyrirtækisins Sanmar Specialty Chemicals Ltd, sem sérhæfir sig í framleiðslu á virkum lyfjaefnum. Verksmiðjan hefur hlotið samþykki bandarískra lyfjayfirvalda og hefur undanfarin ár selt framleiðslu sína til Bandaríkjanna og Evrópu. Kaupverð verksmiðjunnar er ekki gefið upp segir í tilkynningu félagsins..

Þar kemur fram að með kaupunum styrkir Actavis framleiðslugetu sína fyrir virk lyfjaefni og telja stjórnendur félagsins að með því skapist góð tækifæri til þess að lækka framleiðslukostnað samstæðunnar á næstu árum. Um helmingur af framleiðslukostnaði félagsins er vegna kaupa á virkum lyfjaefnum og mun verksmiðjan m.a. þjóna því hlutverki að framleiða hráefni fyrir hluta af þeim fullbúnum lyfjum sem Actavis er nú þegar með í þróun og mun setja á markað á næstu árum. Kaupin koma í beinu framhaldi af opnun þróunareiningar fyrir virk lyfjaefni sem Actavis opnaði á Indlandi í desember síðastliðnum.

Actavis hefur undanfarna mánuði aukið umsvif sín á Indlandi umtalsvert en í desember 2006 fjárfesti félagið í lyfjaverksmiðju Grandix og opnaði á sama tíma nýja þróunareiningu, sem mun þróa aukinn hluta af virkum lyfjaefnum samstæðunnar á næstu árum. Þá fjárfesti Actavis í Lotus á árinu 2005, sem sérhæfir sig í frásogsprófunum (bio-equivalence studies). Alls starfa nú um 620 manns hjá Actavis í Chennai, Bangalore og Hyderabad. Félagið hefur yfir 30 virk lyfjaefni í þróun eftir kaupin segir í frétt Actavis.

Framleiðslueining Sanmar er staðsett við borgina Chennai og hefur sérhæft sig í framleiðslu á virkum lyfjaefnum til þriðja aðila, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Verksmiðjan framleiðir 15 virk efni, auk þess sem unnið er að þróun rúmlega 10 til viðbótar.

Actavis mun eiga samstarf við Sanmar, sem mun styðja við þróunareiningu Actavis á Indlandi. Þá hyggst Actavis leggja áherslu á áframhaldandi framleiðslu félagsins fyrir þriðja aðila, samhliða framleiðslu til eigin nota.


Róbert Wessman, forstjóri Actavis, segir að kaupin séu mikilvægt skref til að lækka enn frekar framleiðslukostnað samstæðunnar á næstu árum. "Við sjáum talsverð tækifæri í að ná aukinni stjórn á þróun og framleiðslu á virkum lyfjaefnum, sem mun styðja við það markmið okkar að auka framlegðarstig samstæðunnar umtalsvert á næstu þremur árum. Þá er það ánægjulegt að við erum í dag eina alþjóðlega samheitalyfjafyrirtækið utan Indlands sem hefur komið sér vel fyrir á Indlandi í þróun og framleiðslu á bæði virkum lyfjaefnum og fullbúnum lyfjum og nýtt sér þá miklu þekkingu sem þar er."