Actavis og japanska lyfjafyrirtækið ASKA Pharmaceutical hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um stofnun sameiginlegs samheitalyfjafyrirtækis í Japan.

Stefnt er að því að starfsemi fyrirtækisins, Actavis ASKA Co., Ltd., hefjist í apríl 2009.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Actavis.

Þar kemur fram að Actavis mun eiga 45% hlut en Aska 55%.

Næst stærsti lyfjamarkaðurinn

Þá kemur fram í tilkynningunni að japanski lyfjamarkaðurinn er sá næst stærsti í heimi, en notkun samheitalyfja er minni í Japan en á öðrum af stærstu mörkuðum heims. J

Japönsk yfirvöld ákváðu nýverið að stefna að því að tvöfalda notkun samheitalyfja í Japan, þ.e. í a.m.k. 30% lyfjamarkaðarins fyrir árið 2012. Í kjölfarið hafa verið settar af stað ýmsar  aðgerðir á vegum yfirvalda  til að ýta undir og styðja þá þróun.   Þá kemur fram að framlag Actavis til hins nýja sameiginlega fyrirtækis, Actavis ASKA Co., Ltd, er eitt besta samheitalyfjaúrval heims, þ.e. 650 núverandi lyf Actavis og tæplega 400 sem nú eru í þróun.

Þá kemur fram að Actavis hefur í framtíðinni möguleika á að selja lyf Aska í gegnum alþjóðlegt dreifikerfi sitt, sem nær í dag til um 60 landa.    „Þetta er frábært tækifæri fyrir Actavis til að komast inn á japanska lyfjamarkaðinn, þann næst stærsta í heiminum,“ segir Sigurður Óli Ólafsson, forstjóri Actavis.

„ Yfirlýsing japanskra stjórnvalda um að stórauka hlutfall samheitalyfja á markaðnum næstu árin var lykilþáttur í ákvörðun okkar um að fara inn á þessum tímapunkti. Við hlökkum til að eiga langt og árangursríkt samstarf við Aska, sem er öflugur samstarfsaðili með sterka stöðu á japanska lyfjamarkaðnum."