*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 5. október 2014 13:35

Að einhverju leyti svikinn af Jóhönnu

Seðlabankastjóri segir það hafa verið mistök að hafa ekki haft neitt skriflegt eftir fund sinn með forsætisráðherra um launamál.

Ritstjórn

Már Guðmundsson segist hafa rætt launakjör sín við Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra áður en hann hafi verið ráðinn í starf seðlabankastjóra. Þetta kom fram í viðtali við hann í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni. Már segist hins vegar ekki hafa neitt skriflegt um þessi samskipti.

„Það voru kannski mín mistök," sagði Már. „Ég hafði verið í störfum þar sem orð standa og allir treysta öllum og var ekki alveg að átta mig á því inn í hvers konar samfélag ég var að koma en er reynslunni ríkari núna."

Már var spurður hvort honum þætti hann hafa verið svikinn af  fyrrverandi forsætisráðherra, eða öðrum, þegar laun hans hafi voru lækku.

„Já, að einhverju leyti er það þannig, en það er náttúrlega bara liðin tíð og henni verður ekki breytt," sagði Már. „Þegar ég kem hingað til lands og þetta ferli er að ganga yfir varðandi mína ráðningu, þegar ljóst var að ég hafði orðið efstur hjá dómnefndinni, sem var undir forystu Jónasar Haralz, sá ég að það var líklegt að mér yrði boðið starfið. Um líkt leyti berast mér fréttir af því að það sé komið fram þetta frumvarp um kjararáð. Mér var náttúrlega ekki alveg ljóst hvort það hefði einhver áhrif á mína stöðu."

Feikileg launalækkun

Már sagðist hafa kynnt sér launakjör seðlabankastjóra áður en hann hefði sótt um. Ekki það að launakjörin væru eitthvað „stórt mál í sjálfu sér fyrir mig. Mér var alveg ljóst að þetta myndi fela í sér feikilega mikla launalækkun frá því starfi sem ég var í erlendis. Það er ekkert hægt að bera það saman og ég gerði enga kröfu til þess."

Már sagðist hins vegar hafa gert kröfu um það að fá að vita hvað væri fólgið í þessu frumvarpi.

„Ég var ekki bara að flytja sjálfan mig heldur fjölskylduna og þetta er óafturkræf ákvörðun á margan hátt vegna þess að ég var að segja upp mjög góðu starfi. Ég setti mig í samband við þáverandi formann bankaráðs Seðlabankans, Láru V. Júlíusdóttur, sem var ennþá með þetta mál samkvæmt lögum. Og spurði, bíddu, ég hafði samband við þig í mars (2009) og þá voru mér kynntar ákveðnar tölur, er þetta að breytast?

Þá fer hún að skoða þessi mál og það endar með því að áður en ég fer í lokaviðtalið þá eru mér kynntar ákveðnar tölur af ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneyti og það var einhver lækkun frá því því þarna í mars. Ég sagði sem svo að ég gæti haldið áfram með umsóknina á þessum grunni og hélt þar með að málið væri búið enda kemur í framhaldinu breytingartillaga á kjararáðslögunum inn í þingið úr forsætisráðuneytinu, sem virtist greinilega hafa verið gerð í þeim tilgangi að gera bankaráðuninu kleift að framfylgja því sem mér hafði verið kynnt.

Á þeim forsendum tek ég þessa ákvörðun. Auðvitað hefði verið miklu hreinlegra af þessum aðilum, ef þeir gátu ekki staðið við þetta, að segja það strax og láta það vera mína ákvörðun hvort ég kæmi eða kæmi ekki."

Ráðherrann í fjölmiðla

Már segir að þegar kjararáð hafi síðan tekið ákvörðun um lækka launin hafi formaður bankaráðs ætlað að standa við það sem Má hefði verið kynnt.

„Þá verður allt vitlaust. Í fyrsta þá er einhver sem lekur máli sem er til umfjöllunar í bankaráðinu, sem er í sjálfu sér brot á lögum um Seðlabanka Íslands. Þá verður allt vitlaust í fjölmiðlaumræðu og forsætiráðherrann kemur í fjölmiðla og segist ekki kannast við þetta mál. Þar með taldi bankaráðið að það gæti ekki framfylgt þessu loforði og tekur ákvörðun um að kjararáðslögin mundi gilda og vísar í því samhengi til fjölmiðlaumræðu, sem er náttúrlega ekki málefnalegt sjónarmið og sjónarmiða ráðherrans, sem var heldur ekki málefnalegt."