Eins og það getur verið gott og hresst að grínast út í yfirmann­inn þá getur það orðið snúið ef grínið gengur of langt og yfirmaðurinn móðgast.

„Þegar ég vann hjá Philips í Belgíu stóð ég eitt sinn í rimmu við yfirmann minn og hans yfirmann um tilhögun ákveðins þróunarverkefnis,“ segir Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri N1, sem hefur einmitt lent í því að móðga, ekki bara yfirmann heldur yfirmenn, þegar hann var við störf úti í Belgíu.

„Þeir vildu gera út um þetta með því að segja að fundur allra helstu vöruþróunarstjóra Philips hefði ályktað að fara ætti þá leið sem þeir studdu. Ég ætlaði þá að vera fyndinn og reyndi að þýða á ensku tilvitnun í Laxdælu um að því verr dygðu heimskra manna ráð sem fleiri kæmu saman,“ segir Eggert Benedikt.

En tilvitnunin vakti ekki mikla lukku: „Þetta hljómaði nú ekki alveg jafnmeitlað á útlenskunni þarna í hita leiksins, auk þess sem yfirmennirnir kunnu ekki alveg að meta skortinn á virðingu fyrir öllum þessum meisturum. Ég var fluttur til í starfi skömmu síðar. Flutti með fjölskylduna til Kaliforníu, alsæll,” segir Eggert Benedikt.

Hann man þó ekki til þess að hafa verið móðgaður illa af sínu samstarfsfólki í gegnum tíðina. „Ég held raunar að oft móðgist fólk fyrir misskilning, eins og dæmið hér að ofan sýnir. Fólk ætti almennt að tjá sig gætilega og forðast að móðga sitt samstarfsfólk, yfirmenn og undirmenn. Á sama hátt verður fólk að gæta sín á að móðgast ekki að þarflausu. Tölvupóstar eru sérstaklega hættulegir að þessu leyti, enda auðvelt að misskilja skrifaðar athugasemdir, sem væru alveg skýrar í talmáli með beitingu raddar og skrokks,“ segir Eggert Benedikt.