Á borði Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, liggur nú það erfiða verkefni að breyta lögum um stjórn fiskveiða í landinu. Álitamálin í þeirri vinnu eru mörg, en leiðarvísirinn er skýrsla starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða sem skilað var 16. september í fyrra. Í þeirri nefnd áttu sæti átján fulltrúar úr ólíkum áttum, einkum þó stjórnmálum og sjávarútvegi. Guðbjartur Hannesson, núverandi velferðarráðherra, stýrði hópnum í umboði Samfylkingarinnar.

„Þegar stjórn fiskveiða er skoðuð og metin verður horfa til þess sem skiptir mestu máli fyrir þjóðarbúið. Það er verðmætasköpunin sjálf,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, oft nefndur Binni í Vinnslustöðinni. Hann er framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, sem er með um 200 manns í vinnu.

„Þó ég sé í sjávarútvegi, og hafi því betri innsýn í greinina en margir sem tjá sig um hana, þá finnst mér mikilvægast að fyrst og fremst sé horft til þess hvernig þjóðin getur skipulagt sitt fiskveiðistjórnunarkerfi þannig að hún hagnist á því og að það sé sjálfbært til langs tíma. Fyrningarleiðin, sem augljóslega heggur í efnahag allra þeirra sem vinna í sjávarútvegi og eiga aflaheimildir, er stórskaðleg fyrir þjóðarbúið. Það gefur auga leið. Sveitarfélög víða um landið munu fá minni tekjur af sjávarútvegi. Hugmyndin, sem margir virðast hafa um sjávarútveginn í Reykjavík, er sú að það sé hægt að skattleggja sjávarútveginn á landsbyggðinni svo hann skili meira af sér til höfuðborgarinnar. Á endanum mun skattlagningin, sértækt á sjávarútveginn, leiða til þess að greinin sem ber uppi efnahag landsins og velferðarkerfið mun leggja minna til þjóðarinnar. Það er óskynsamlegt.“

Binni segir átökin um sjávarútvegskerfið ekki snúast um hvernig hægt sé að auka tekjur af sjávarútvegi. Það sé miður, því með það markmið sé hugsanlega hægt að bæta starfsumhverfi greinarinnar enn meira. „Umræða um þessi mál hefur aldrei verið yfirveguð og hún er að minnka ef eitthvað er, ef horft er til þess hvernig margir stjórnmálamenn tala um greinina. Það finnst mér mjög leitt, vegna þess að aðalatriðið er að sjávarútvegur skili tekjum til þjóðarbúsins. Þegar allt er tekið eru þetta um 200 milljarðar á ári og það þarf frekar að auka þær núna, eins og árferðið er, en að minnka þær.“

Annan hluta af úttekt Viðskiptablaðsins á sjávarútvegsmálum er að finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.