Aðalmeðferð í Al-Thani málinu svokallaða, sem átti að fara fram í dag, hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Dómari sagði að eftir að hann hafnaði beiðni Gests Jónssonar og Ragnars H. Hall um að vera leystir frá störfum sem verjendur Sigurðar Einarssonar og Ólafs Ólafssonar, hafi þeir svarað og ítrekað þá skoðun sína að þeir yrðu ekki neyddir til að sinna verjendastarfinu gegn þeirra samvisku. Í ljósi þessa sneri dómurinn fyrri ákvörðun og leysti þá undan verjendaskyldunni.

Hefur Ólafi og Sigurði því verið skipaðir nýir verjendur. Saksóknari í málinu lét bóka þá skoðun sína að með því að segja sig frá málinu hafi Gestur og Ragnar aðeins haft það í huga að fresta málinu og krafðist þess að lagðar yrðu réttarfarssektir á þá.

Sakborningar voru allir mættir í þingsal í dag.