Velta í smásöluverslun hefur ekki verið meiri í ríflega átta ár. Hún er núna á pari við það sem hún var árið 2007. Þetta sýna tölur Hagstofunnar. Þrátt fyrir sambærilegar tölur eru það ólíkir kraftar sem drífa smásöluverslunina áfram nú en árið 2007. Ferðaþjónustan hefur miklu meiri áhrif á verslun hérlendis nú en hún gerði fyrir tíu árum. Þess ber þó að geta að hún hefur mismikil áhrif á fyrirtæki. Árið 2007 var einkaneysla almennings að stórum hluta drifin áfram með neyslulánum en í dag er staðan þannig að vöxtur í einkaneyslu er nokkuð undir því sem ætla mætti að aukning ráðstöfunartekna leyfi.

Á mannamáli þýð­ir þetta að þó að neytendur séu að versla meira eyði þeir ekki um efni fram. Sparnaður er að aukast. Þegar veltan í smásöluverslun er reiknuð á verðlagi ársins 2016 þá nam hún 404 milljörðum króna í fyrra. Var það í fyrsta skiptið frá árinu 2008, sem veltan fór yfir 400 milljarða. Árið 2008 var hún tæplega 422 milljarðar og árið 2007 var hún 435 milljarðar. Þessi þróun kemur ekki óvart enda hefur hagvöxtur aukist mikið. Hann var tæplega 4,2% í fyrra og á fyrri helmingi þessa árs mældist hann 4,1%. Að þessu leyti var botninum náð árin 2009 og 2010 þegar hagvöxtur var neikvæður.

Launahækkanir hafa skilað sér í auknum kaupmætti.

Þannig jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann um ríflega 5% milli áranna 2013 og 2014 og um tæplega 8% milli áranna 2014 og 2015. Vöruskiptajöfnuður var jákvæð­ ur um 4 milljarða árið 2014 en neikvæður um tæplega 31 milljarð í fyrra. Á fyrstu átta mánuðum þessa árs voru fluttar út vörur fyrir 359,4 milljarða króna en innflutn ingur nam 445,7 milljörðum (fob). Halli á vöruskiptum við útlönd fyrstu átta mánuði ársins nam því 86,3 milljörðum. Venjulega hefur þessi þróun leitt til veikingar krónunnar, sem hefur aftur leitt til aukinnar verðbólgu og þar með kaupmáttarrýrnunar en það hefur ekki verið reyndin nú.

Fólk kaupir bíla

Frá og með árinu 2014 hefur verð­ bólgan verið undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Vafalaust hafa höftin töluvert að segja í þeim efnum en ekki síst uppgangur ferðaþjónustunnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.