Búist er við að seinni hluti síðasta árs og upphaf þessa árs hafi verið gott í breskum smásölugeira. Debenhams, Sainsbury's og Next birta uppgjör í vikunni.

Í netútgáfu breska dagblaðsins Guardian segir að stjórnendur Debenhams hafi þegar gefið það út að uppgjörið sé gott. Þá segir í blaðinu að uppgjörið geti verið vísbending um að aðstæður sé að batna í bresku efnahagslífi.

Michael Sharp, forstjóri Debenhams, segir í samtali við blaðið aðstæður í breskri verslun séu erfiðar. Hann bendir á að þegar kreppir að þá breytist kauphegðun neytenda, þeir kaupi færri en dýrari hluti. Það skilar versluninni litlu, ekki síst þar sem dýrari hlutir eru með þeim fyrstu til að fara á útsölu í upphafi árs.

Hlutur Baugs í Debenhams

Baugur, Kevin Stanford og FL Group keyptu tæpan fimm prósenta hlut í Debenhams árið 2007 í nafni fjárfestingarfélagins Unity. Félagið jók við hlut sinn hægt og bítandi og áttu þegar yfir lauk 13% í fyrirtækinu. Hluturinn var seldur úr þrotabúi Baugs í apríl árið 2009 fyrir milligöngu breska bankans HSBC á genginu 45 pens á hlut. Gengi hlutabréfa Debenhams stendur nú í 76,25 pensum á hlut.