Tuttugu manns starfa sem aðstoðarmenn fyrir ráðherra og nemur heildarlaunakostnaður þessara starfsmanna 203,7 milljónum króna á ársgrundvelli. Fréttablaðið greinir frá þessu.

Af þessum tuttugu aðstoðarmönnum starfa sjö fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, og nema árslaun þeirra samtals 64,3 milljónum króna. Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur þrjá aðstoðarmenn, en Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hafa tvo sér til aðstoðar. Aðrir ráðherrar hafa einn aðstoðarmann.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir í samtali við Fréttablaðið að ríkisstjórnin gangi ekki á undan með góðu fordæmi. „Ef hún telur ástæðu til að skera niður, þá verður hún að byrja hjá sjálfri sér. Þessi ríkisstjórn hefur lýst því yfir að búið sé að ná viðsnúningi í ríkisfjármálum. En þessi liður vex stjórnlaust á meðan álögur á sjúklinga hækka og framhaldsskólunum er lokað fyrir fólki.“