Akureyrarbær og upplýsingatæknifyrirtækið Advania hafa undirritað samning um að Advania taki að sér rekstur og framþróun á upplýsingatæknikerfum bæjarins og stofnana hans til næstu fimm ára. Í tilkynningu segir að markmiðið sé að auka ávinning og hagræði Akureyrarbæjar og íbúa af notkun upplýsingatækni. Akureyrarbær hefur keypt hýsingu fyrir tölvukerfi sín síðan árið 2011 og er Advania fjórða fyrirtækið síðan þá til að taka hýsinguna að sér.

Þá segir í tilkynningunni að kerfi bæjarins verða hýst í hýsingarsal Advania á Akureyri og muni verkefnið renna frekari stoðum undir starfsemi Advania í höfuðstað Norðurlands. Samningurinn felur í sér að Advania tekur að sér rekstur og hýsingu á miðlægum kerfum ásamt því að sjá um gagnageymslur bæjarins, gagnaafritun, eftirlit með kerfum, netsamband og Internetþjónustu. Jafnframt mun Advania þjónusta 1.200 starfsmenn bæjarins við tölvunotkun þeirra.

Á meðal þeirra upplýsingakerfa sem starfsmenn bæjarins nýta sér í daglegum störfum eru SAP bókhaldskerfi, One skjalakerfi og mannauðskerfið Vinnustund. Allar stofnanir bæjarins tengjast inn á miðlægt umhverfi Akureyrarbæjar sem hýst verður hjá Advania.