Bandaríska tryggingafélagið American International Group (AIG) hefur nú takmarkað aðgang starfsmanna sinna að einkaþotu félagsins, það er fyrir utan forstjórann sjálfan.

Í nýjum starfsreglum AIG kemur fram að forstjórinn megi nota flugvél félagsins í einkaerindum ef þau eru með einhverjum hætti tengd viðskiptaferðum forstjórans. Hann þarf engu að síður að endurgreiða allan kostnað sem snýr að einkanotum sínum af vélinni. Öðrum starfsmönnum AIG verður þó ekki heimilt að nota vélina nema í viðskiptatengdum tilgangi.

Mörg þeirra félaga, þar á meðal AIG, sem þegið hafa neyðarlán frá bandaríska ríkinu hafa legið undir ámæli fyrir að gera vel við stjórnendur sína eftir að þeim var komið til bjargar. Bandarískir skattgreiðendur hafa nú pungað út um 182,3 milljörðum dala til að bjarga AIG sem er stærsta tryggingafélag Bandaríkjanna.