Tæplega 2000 fyrirtæki sem Beina brautin svokallaða nær til hafa nú þegar fengið lausn sinna mála hjá bönkunum, samkvæmt upplýsingum sem efnahags- og viðskiptaráðuneytið hefur kallað eftir.

Horfur eru á að allur þorri fyrirtækja sem falla undir samkomulag um skuldaúrvinnslu lítilla og meðalstórra fyrirtækja fái tilboð um endurskipulagningu skulda sinna fyrir 1. júní nk. að því er fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu.  Í einstökum tilvikum munu sumir bankanna þurfa júnímánuð til að ljúka tillögugerð.

Ráðherra kynnti ganginn í dag

Árni Páll Árnason ráðherra boðaði blaðamannafund í dag til að kynna ganginn í endurskipulagningu lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Í tilkynningu ráðuneytisins segir að alls nái samkomulagið til um 6000 fyrirtækja, þ.e. þeirra sem eru með skuldir á milli 10-1000 milljónir króna. Tæp 2000 þessara fyrirtækja séu  ekki í greiðsluvanda og þurfi  ekki aðstoð. Um 1500 þeirra hafi  neikvæðar rekstrarhorfur og fara því að líkindum í þrot.

Önnur hafa þegið tilboð fjármálafyrirtækja um 25% lækkun eftirstöðva erlendra og gengistryggðra lána samkvæmt tilkynningu og enn önnur hafa fengið skuldavanda sinn leystan með öðrum hætti en afskriftum, svo sem lánalengingum eða annars konar umbreytingum. Þau sem eftir standi hafi nú þegar fengið eða muni fá tilboð um endurskipulagningu skulda í síðasta lagi fyrir lok júní.

Vinna einnig úr milljarðaskuldum

Fjármálafyrirtækin hafa einnig boðið skuldaaðlögun fyrir fyrirtæki sem skulda meira en 1000 milljónir króna. Aukinn kraftur er nú í þeirri vinnu að því er fram kemur í fréttatilkynningu og bankarnir hafa sett sér markmið um að ljúka þeirri vinnu að langmestu leyti fyrir árslok. Efnahags- og viðskiptaráðuneytið og eftirlitsstofnanir segjast ætla að ganga á eftir því að þau markmið náist.

Þegar þessar tölur eru teknar saman er staða mála svona samkvæmt upplýsingum frá fjórum stærstu fjármálafyrirtækjunum :

  • Fyrirtæki alls, skuldir 10-1000 m.kr.: 5.977
  • Fyrirtæki sem ekki eru í greiðsluvanda: 1.974
  • Fyrirtæki í skuldavanda: 4.003
  • Leyst með Beinu brautinni: 973
  • Leyst án afskrifta: 672
  • Leyst með afskriftum v/gengislána: 280
  • Úrlausn ekki ákveðin, í skoðun: 526
  • Innheimta/gjaldþrot: 1.552

„Endurskipulagning skulda bæði fyrirtækja og heimila er nauðsynlegur þáttur í að efla fjárfestingu í íslensku hagkerfi, sem aftur leiðir af sér hagvöxt og störf. Samkomulagið hefur rofið kyrrstöðu í skuldaúrvinnslu fyrirtækja og leitt til þess að fyrirtæki með heilbrigðan rekstrargrundvöll fá fast land undir fætur. Lítil og meðalstór fyrirtæki standa undir drjúgum hluta verðmæta- og atvinnusköpunar í landinu og eru um 90% af fyrirtækjum landsins," segir í tilkynningu frá efnahags- og viðskiptaráðuneytisins.