„Við ætlum ekki að grafa línu í sandinn gagnvart mörkuðum,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri en Seðlabankinn hefur ekki markmið um það hvað krónan má veikjast mikið. 

Már sagði á fundi í bankanum í morgun þar sem hann gerði grein fyrir vaxtaákvörðun peningastefnunefndar að bankinn hafi gefið út að hann ætli að vera virkur á gjaldeyrismarkaði til að draga úr sveiflum á gengi krónunnar. Slík sveifla komi hins vegar ekki í veg fyrir að undirliggjandi þrýstingur nái að lokum fram sem leitni á gengi krónunnar. Þá geti ýmsir þættir haft áhrif á gengisþróun, s.s. þungi endurgreiðslubyrði lána í erlendri mynt. Már sagði marga, bæði fyrirtæki og sveitarfélög, hafa klárað sín mál og aðrir langt komnir. Aðrir eru svo að endursemja, s.s. Landsbankinn. Til viðbótar setja léleg viðskiptakjör þrýsting á gengi krónunnar.

„Þess vegna ætlum við ekki að svara því hvað krónan má veikjast mikið eða spá fyrir um það. Við þurfum öll að draga lærdóm af síðustu misserum þar sem aðilar hafa reynt að sjá munstrur innan ársins. Menn eru ekki fyrr búnir að sjá munstur þegar það brotnar niður,“ sagði Már.