„Ástæðan fyrir því að ég samþykkti að taka að mér að stýra setrinu er að það er gott tól í þeirri framtíðarsýn að við getum gert Ísland best í heimi í verslun fyrir Íslendinga sjálfa. Eitt af mínum fyrstu verkefnum er að fara í naflaskoðun á því hvert rannsóknasetrið stefnir, hverja við þjónustum og hvar tækifærin liggja," segir Edda Blumenstein, nýr forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar.

„Ég held ég hafi fæðst með áhuga á verslun, amma mín og nafna rak í fjöldamörg ár verslunina Ósk á Akranesi, svo án þess að það hafi kannski verið meðvitað hef ég alltaf sogast meira inn í þennan heim. Síðustu ár hef ég verið í ráðgjöf og aðstoðað verslunarfyrirtæki við stefnumótun sem passar vel við það hlutverk setursins að efla íslenska verslun. Við getum gert það með því að hjálpa þeim að geta tekið ákvarðanir byggðar á gögnum um markaðinn en ekki tilfinningu."

Edda er doktor í því sem kallað hefur verið á íslensku heildræn nálgun í verslun frá viðskiptaháskólanum í Leeds í Bretlandi. „Ég ætlaði mér aldrei að verða doktor í einhverju, en þegar maðurinn minn, Árni Ingi Pjetursson, fór að vinna hjá Nike í Bretlandi ákvað ég að nýta tækifærið og fara í mastersnám sem átti aldrei að vera meira en eitt ár. Þegar ég var að gera lokaverkefnið mitt í því féll ég fyrir því sem kallað hefur verið Omnichannel-aðferðafræðin og svo var mér boðinn styrkur til að halda áfram með rannsókn mína um hana í doktorsnámi," segir Edda.

„Það hafa auðvitað verið gríðarlegar breytingar í verslun síðan internetið kom og netverslun hófst, svo allar rannsóknir á því eru mjög verðmætar. Mín rannsókn snerist um það hvernig verslunarfyrirtæki geti þróað með sér dýnamíska hæfni til þess að aðlagast sífellt breytilegu markaðsumhverfi. Það sem þarf til að uppfylla þarfir og væntingar viðskiptavina er nefnilega sífellt að breytast. Lykillinn er að geta veitt góða heildarupplifun í öllu ferlinu frá því áður en kaupin eiga sér stað, á meðan og á eftir, með hnökralausu samspili stafrænna og hefbundinna snertiflata viðskiptavina við verslunina."

Edda og Árni Ingi eiga fjögur börn á aldrinum 3 til 18 ára, þrjá stráka og eina stúlku. „Það var sérstaklega þægilegt að vera neytandi í Bretlandi og svo var geggjað að hafa allar árstíðirnar en húsin þar úti eru ísköld, líka á sumrin. Ég saknaði þess hins vegar að hafa sjóinn og fjöllin allt í kring, það er ómetanlegt. Maður áttar sig ekki alltaf á hvað nálægðin við náttúruna hafði góð áhrif fyrr en það er tekið frá manni. Ég elska að fara í útilegur, á skíði og í göngur og svo hef ég aðeins verið að hugleiða."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .